Tor-vafrinn notar Tor-netið til að vernda persónuupplýsingar þínar og halda þér nafnlausum. Notkun Tor-netsins gefur tvenns konar eiginleika:

  • Netþjónustuaðilinn þinn (ISP), og hver sá sem væri að fylgjast með umferðinni þinni á staðarnetinu, munu ekki geta fylgst með því sem þú ert að gera á internetinu, þar með talin eru nöfn og vistföng vefsvæða sem þú heimsækir.

  • Þeir sem reka vefsvæðin og þjónusturnar sem þú notar, auk þeirra sem væru að fylgjast með þeim, munu sjá tengingu sem kemur frá Tor-netinu í staðinn fyrir að sjá raunverulegt IP-vistfang þitt, og munu því ekki vita hver þú ert nema að þú auðkennir þig sérstaklega.

Að auki er Tor-vafrinn hannaður til að hindra vefsvæði í að "taka fingraför" eða að auðkenna þig út frá uppsetningu vafrans.

Sjálfgefið geymir Tor-vafrinn ekki neinn vafurferil. Vefkökur eru einungis gildar í stökum setum (þar til hætt er í Tor-vafranum eða beðið um Nýtt auðkenni).

HVERNIG TOR VIRKAR

Tor er net af sýndargöngum (virtual tunnels) sem gera þér kleift að bæta friðhelgi þína og öryggi á internetinu. Tor virkar þannig að umferðin þín er send í gegnum þrjá handahófsvalda þjóna (einnig nefndir endurvarpar) í Tor-netkerfinu. Síðasti endurvarpinn í rásinni (nefndur “úttaksendurvarpi”) sendir þá umferðina út á opinbera internetið.

Hvernig Tor virkar

Myndin hér fyrir ofan sýnir hvernig notandi vafrar um hin ýmsu vefsvæði í gegnum Tor. Grænu tölvurnar á milli tákna endurvarpa á Tor-netkerfinu, á meðan lyklarnir þrír tákna lögin af dulritun sem aðskilja notandann og hvern endurvarpa.